Enski boltinn

Ófarir Tottenham halda áfram

NordicPhotos/GettyImages

Stoke City jók enn á ófarir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag með 2-1 sigri á Lundúnaliðinu á heimavelli. Stoke vann annan sigur sinn á leiktíðinni en Tottenham hefur ekki byrjað jafn illa í sögu félagsins.

Leikurinn í dag var í meira lagi dramatískur og fjörið byrjaði strax eftir um stundarfjórðung þegar dæmd var vítaspyrna á gestina. Gareth Bale braut þá á Tom Soares innan teigs og var rekinn af velli.

Danny Higginbotham skoraði úr vítinu og kom Stoke yfir, en Darren Bent náði að jafna fyrir Tottenham fyrir hlé, þó rangstöðulykt hefði verið að markinu.

Það var svo Rory Delap sem skoraði sigurmark Stoke í leiknum eftir laglega spilamennsku.

Þar með var fjörið ekki búið, því Michael Dawson var einnig vikið af leikvelli hjá Tottenham fyrir ljóta tæklingu. Þá meiddist varnarmaðurinn Vedran Corluka illa og var borinn af velli og fluttur á sjúkrahús.

Hvorki meira né minna en ellefu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og í uppbótartímanum fékk Stoke aðra vítaspyrnu. Ricardo Fuller tók spyrnuna og skaut henni í báðar stangirnar og upp úr því átti Rory Delap skot í þverslá.

Tottenham er því sem fyrr í langneðsta sæti deildarinnar með aðeins tvö stig eftir átta leiki, en Stoke er komið með sjö stig. Liðið er þó enn á fallsvæðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×