Innlent

Segir RÚV ekki hafa brotið gegn samkeppnislögum

Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Ekki verður séð að RÚV hafi brotið gegn gildandi samkeppnislögum. Þvert á móti virðist álit Samkeppniseftirlitsins fyrst og fremst varða túlkun á lögum um Ríkisútvarpið ohf. og þjónustusamningi þess við menntamálaráðuneytið. Þetta segir í fréttatilkynningu sem Páll Magnússon útvarpsstjóri sendi frá sér fyrir stundu. Þar segir að upphaflegt erindi Samkeppniseftirlitsins hafi meðal annars lotið að því hvort RÚV hefði með hegðun sinni á auglýsingamarkaði misnotað meinta markaðsráðandi stöðu.

„Virðist það mat Samkeppniseftirlitsins að staða og háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði leiði af sér samkeppnislega röskun. Að mati RÚV verður niðurstaða Samkeppniseftirlitsins ekki skilin öðruvísi en svo að Samkeppniseftirlitið telji það þjóna almennum samkeppnishagsmunum að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Slíkt gæti þá, að óbreyttu, leitt til þess að sú staða skapist á markaði að einn aðili verði í einstakri yfirburðastöðu á auglýsingamarkaði, sem gæti jafnframt verið til þess fallið að skaða samkeppni á tengdum mörkuðum. Telji Samkeppniseftirlitið slíkt til þess fallið að auka samkeppni, og þjóna hagsmunum neytenda, verður svo að vera," segir í tilkynningu Páls.

Þá segir Páll að RÚV muni ekki tjá sig frekar um einstök efnisatriði álitsins, fyrr en félaginu hefur gefist nauðsynlegt tóm til að yfirfara þau sérstaklega.




Tengdar fréttir

Álit Samkeppniseftirlitsins kemur ekki á óvart

Ari Edwald, forstjóri 365 hf, fagnar áliti Samkeppniseftirlitsins um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og segir að hún komi sér alls ekki á óvart. Hann tekur þó fram að hann hafi að hann hafi einungis kynnt sér álitið lauslega.

Sigríður fagnar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins

„Þetta álit eitt og sér breytir ekki rekstrarumhverfinu, en vissulega styður þetta við að teknar verði réttar ákvarðanir og RÚV hverfi af auglýsingamarkaði," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Skjás eins.

Samkeppniseftirlitið vill RÚV af auglýsingamarkaði

Samkeppniseftirlitið leggur til að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði þegar aðstæður leyfi. Telji menntamálaráðherra eða Alþingi ekki að RÚV geti horfið af markaði á að takmarka umsvif félagsins á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×