Innlent

Segir lítið kjöt á beinum aðgerða ríkisstjórnarinnar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.

Aðgerðir ríkisstjórninnar sem kynntar voru fyrr í dag eru skref í rétta átt, að mati Steingríms J. Sigfússonar formanns Vinstri grænna. ,,Aftur á móti sló mig hversu tillögurnar eru veiklulegar og hversu lítið kjöt er á beinum."

Ríkisstjórnin mun leggja fram sérstakt frumvarp til þess að létta greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán ásamt því að endurskoða lög um dráttarvexti. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, efndu til í dag. Þar var farið yfir margháttaðar aðgerðir sem snúa að heimilunum í landinu í núverandi þrengingum.

,,Vandinn er núna. Þannig að ég get ekki gefið þessa mjög háa einkunn. Í besta falli get ég sagt að þetta sé viðleitni en hún er veikluleg," segir Steingrímur.

Steingrímur segist ekki geta lesið annað út úr svörum forystumanna ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundinum að stjórnin sé að undirbúa uppgjöf í Icesave-deilunni þvert á fyrri heitstrengingar sínar.

,,Ég hef rosalega áhyggjur og ég er hræddur um að við töpum allri samningsstöðu með því að skrifa upp á þetta núna því Icesave-reikningapakkinn er pólitískt og siðferðilega eitraður."

Aðspurður hvort að ríkisstjórnin eigi annarra kosta völ viðurkennir Steingrímur að staðan sé vissulega þröng. ,,Aftur á móti höfum við gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki fleiri spil á hendi og fleiri úrræði. Þegar við lögðumst gegn umsókninni til IMF sögðum við meðal annars að það væri hættulegt að setja allt okkar traust á þá einu leið vitandi ekki einu sinni hverjir skilmálarnir yrðu og eiga þá enga aðra möguleika sem reyndist síðan raunin."










Tengdar fréttir

Greiðslubyrði af verðtryggðum lánum lækkuð með vísitölu

Ríkisstjórnin mun leggja fram sérstakt frumvarp til þess að létta greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán ásamt því að endurskoða lög um dráttarvexti. Þá koma Bretar ekki hingað til loftrýmiseftirlits í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×