Innlent

Greiðslubyrði af verðtryggðum lánum lækkuð með vísitölu

Ríkisstjórnin mun leggja fram sérstakt frumvarp til þess að létta greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán ásamt því að endurskoða lög um dráttarvexti. Þá koma Bretar ekki hingað til loftrýmiseftirlits í desember.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra efndu til í dag. Þar var farið yfir margháttaðar aðgerðir sem snúa að heimilunum í landinu í núverandi kreppu.

Þannig verður lagt fram frumvarp um að létta greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán með sérstakri greiðslujöfnunarvísitölu. Þetta getur lækkað greiðslubyrði um tíu prósent nú og 20 prósent eftir um ár frá því sem ella hefði orðið. Sagði Geir þetta mikilvæga aðgerð og skylda þeirri að koma fólki með gjaldeyrislán til aðstoðar. Með þessu frumvarpi væri verið að fresta hluta af verðbótum þar til síðar á greiðslutímabili.

Dráttarvextir lækkaðir

Þá sagði forsætisráðherra að því hefði verið beint til Íbúðalánasjóðs að koma til móts við þá sem ættu í erfiðleikum með ýmsum aðgerðum, þar á meðal lengri greiðslutíma lána og að fólk gæti leigt húsnæði sitt ef það missti það til sjóðsins. Enn fremur stæði til að endurskoða lög um dráttarvexti þannig að þeir lækkuðu, að minnsta kosti tímabundið, og jafnframt að setja þak á innheimtukostnað.

Barnabætur greiddar út mánaðarlega

Þá kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að til stæði að fella úr gildi heimild tímabundið um að skuldajafna barnabótum á móti opinberum gjöldum sem hefðu lent í vanskilum. Þá væri gert ráð fyrir að barnabætur yrðu greiddar út mánaðarlega í stað þess að vera á þriggja mánaða fresti og enn fremur að hægt yrði að semja um skattaskuldir. Þá yrðu innheimtuaðgerðir mildaðar hjá stofnunum og takmarkað það hlutfall launa sem nota mætti til skuldajöfnunar, en það hlutfall væri nú 75 prósent af launum.

Þá sagði hún að frumvarp væri nú til umfjöllunar hjá stjórnarflokkunum þar sem heimilt væri að endurgreiða hluta vörugjalda og virðisaukaskatts af notuðum ökutækjum. Fólk gæti þannig losað sig við notaða bíla ef frumvarpið yrði að lögum.

Bretar koma ekki til loftrýmiseftirlitsins

Ingibjörg sagði þessar tillögur unnar á vegum vinnuhóps á vegum ríkisstjórnarinnar sem væri enn að störfum og næst myndi hann koma með aðgerðir til hjálpar fyrirtækjum í landinu. Þá bætti hún við að frumvarp um sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis yrði lagt fram í næstu viku en það væri í samstarfi flokkanna. Enn fremur kom fram að allar þessar aðgerðir yrðu kynntar í blöðum morgundagsins.

Þá kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að Bretar myndu ekki koma hingað til loftrýmiseftirlits í desember eins og til stóð. Þetta hefði verið ákveðið í ljósi sameiginlegs mats Atlantshafsbandalagsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×