Innlent

Ríkið sýknað af bótakröfu vegna frelsisskerðingar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands.

Hæstiréttur sýknaði í dag íslenska ríkið af skaðabótakröfu manns sem var handtekinn við komuna til Íslands í mars 2005. Hafði maðurinn verið handtekinn þegar hann kom með Norrænu til Seyðisfjarðar þar sem nafn hans hafði komið fram í Schengen- upplýsingakerfinu yfir eftirlýsta menn.

Manninum var gefið að sök fíkniefnalagabrot í félagi við aðra menn í Þýskalandi og var hann eftirlýstur af þarlendum yfirvöldum. í kjölfar handtökunnar var maðurinn úrskurðaður í farbann og síðar framseldur þýskum yfirvöldum þar sem hann sat í gæsluvarðhaldi þar til sýknudómur var kveðinn upp í máli hans.

Maðurinn taldi að á sér hefði verið brotið og krafðist tæpra tveggja milljóna króna í bætur auk vaxta. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur kom fram að öll lögmæt skilyrði hefðu verið fyrir hendi til að maðurinn sætti umræddum þvingunaraðgerðum og að nægilegt tilefni hefði verið til að beita þeim. Þá var talið að meðferð málsins hefði ekki tekið of langan tíma innan stjórnsýslunnar.

Ekki var heldur talið að þvingunaraðgerðir sem hann sætti á farbannstímanum, en honum var gert að mæta tvisvar á dag á lögreglustöðina, hefðu brotið gegn meðalhófsreglunni við meðferð málsins. Þá var jafnframt hafnað kröfu mannsins um greiðslu miskabóta úr hendi íslenska ríkisins þar sem ekki var talið að í umræddum aðgerðum hefðu falist ólögmæt meingerð gegn frelsi eða friði hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×