Innlent

Hagfræðiprófessor vill leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.
Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.

Stjórnvöld ættu að leita eftir aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er mat Þovaldar Gylfasonar, prófessors í hagfræði, sem var gestur í Silfri Egils í dag. Þorvaldur sagði að með því gæti fengist gæðastimpill sem væri til þess fallinn að endurvekja trú heimsmarkaðarins á Íslandi. Hann benti á að það væri ekki einsdæmi að vestrænt ríki leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það hefðu Bretar gert fyrir 40 árum. Þorvaldur sagðist jafnframt eiga á von á því að önnur Evrópuríki þyrftu að leita þangað og nefndi hann Ungverjaland sem dæmi.

Þorvaldur lagði jafnframt áherslu á að leitað yrði aðstoðar frá Svíum og Norðmönnum og hugsanlega líka Dönum og Finnum. Þessi ríki gætu veitt bæði þá tækniaðstoð og fjárhagsaðstoð sem nauðsynleg væri. Þorvaldur sagði að Svíar og Normenn væru meistarar í þeirri bankahreingerningu sem þörf sé á og það veki furðu margra að ekki hafi verið leitað til þeirra fyrr.

Þorvaldur sagði jafnframt að það þyrfti að skipta um áhöfn í Seðlabankanum strax eftir helgi. Hann sagði að ef ríkisstjórnin réði ekki við það verk að skipta út æðstu stjórnendum Seðlabankans þyrfti hún sjálf að víkja. Bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefðu gert mjög alvarleg og ítrekuð mistök.

Þá varaði Þorvaldur við hugmyndum um að lífeyrissjóðirnir komi með erlendar eignir sínar inn í landið til að kaupa krónur. Hann sagði að það væru fyrst og fremst bankarnir sem ættu að losa um erlendar eignir sínar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×