Innlent

LÍÚ telur brýnt að efla starfsemi Landhelgisgæslunnar

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ segir að fréttir af ítrekuðum meintum ólöglegum veiðum færeyskra skipa í íslenskri lögsögu sýna betur en nokkuð annað hve brýnt er að efla starfsemi Landhelgisgæslunnar.

„ Hún hefur um árabil verið í fjársvelti. Gæslan sinnir ekki aðeins eftirliti heldur er öryggishlutverk hennar afar mikilvægt fyrir íslenska sjómenn," segir Friðrik í frétt á vefsíðu LÍÚ um málið.

Greint var frá því fyrir helgina að rannsókn stæði nú yfir í Færeyjum á meintum ólöglegum veiðum tveggja færeyskra skipa. Fjölmiðlar í Færeyjum og hér heima hafa greint frá því að ákæruvaldið í Færeyjum hafi rökstuddan grun um að skipin hafi veitt í íslenskri lögsögu með slökkt á fjareftirlitsbúnaði sem sýnir hvar skipin eru stödd.

Samkvæmt fjölmiðlum hefur annar skipstjórinn viðurkennt að hafa kastað siglingatölvu skips síns í sjóinn á leið til hafnar þann 16. nóvember sl.

Þessi sami skipstjóri var fyrst grunaður um ólöglegar veiðar í íslenskri lögsögu í janúar 2006. Þá sinnti hann í engu fjarskiptum frá eftirlitsflugvél Gæslunnar. Þá kom varðskipið Týr einnig að skipi hans, ásamt öðru færeysku skipi, við meintar ólöglegar veiðar innan lögsögunnar fyrir rétt tæpu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×