Innlent

Reyndu að kúga út tugmilljónir

Embætti ríkissaksóknara
Ákærir þremenningana fyrir fjárkúgun og fleiri brot.
Embætti ríkissaksóknara Ákærir þremenningana fyrir fjárkúgun og fleiri brot.

Ríkissaksóknari hefur ákært þrjá menn fyrir tilraun til að kúga tugmilljónir króna út úr manni. Þá er einn þremenninganna ákærður fyrir ofbeldisbrot að auki og annar fyrir fíkniefnabrot. Mennirnir eru á þrítugs- og fertugsaldri.

Þeir eru ákærðir fyrir að hafa í apríl ruðst inn í skrifstofuhúsnæði þess sem kúga átti, þar sem hann var við störf. Þeir ógnuðu honum með öxi, hamri og klaufhamri sem þeir höfðu meðferðis. Þeir hótuðu manninum líkamsmeiðingum greiddi hann ekki tugmilljónir króna, sem einn innrásarmannanna taldi hann skulda. Innbrotsmennirnir hurfu á brott eftir að maðurinn hafði lofað að greiða þeim þrjár milljónir króna á tilteknum degi.

Þá er einn innrásarmannanna ákærður fyrir að hafa á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu mannsins sem þeir voru að kúga í hættu, þegar sá fyrrnefndi fleygði klaufhamri í átt til hans. Hamarinn hafnaði í hillu nokkrum sentimetrum frá höfði mannsins.

Annar innbrotsmannanna er svo ákærður fyrir fíkniefnabrot. Hann var í apríl tekinn með fíkniefni á sér og heima hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×