Erlent

Sýrlendingar æfir yfir árás Bandaríkjamanna

MYND/AP

Sýrlendingar eru æfir yfir því að bandarískt herlið hafi farið inn á sýrlenskt landsvæði nærri landamærum Íraks og myrt átta óbreytta borgara í gær. Fjögur börn eru sögð meðal hinna látnu.

Sýrlensk stjórnvöld fullyrða að bandarískar herþyrlur hafi gert loftárás á bóndabæ í héraðinu Abu Kamal sem á landamæri að Írak. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki viljað staðfesta þetta en ef rétt reynist er þetta fyrsta árás Bandaríkjamanna á sýrlensku landsvæði.

Bæði bandarískir og írakskir erindrekar voru kallaðir á fund sýrlenskra stjórnvalda þar sem árásinni var mótmælt harðlega. Þá sagði blaðafulltrúi sýrlenskra stjórnvalda í Lundúnum við Breska ríkisútvarpið að árásin væri hrottafenginn glæpur og að bandarísk stjórnvöld virtu ekki alþjóðalög. Sýrlendingar áskildu sér rétt til að svara árás Bandaríkjamanna.

Grunnt hefur verið á því góða milli Sýrlendinga og Bandaríkjamanna og hafa þeir síðarnefndu sakað Sýrlendinga um að skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn sem geri svo árásir í Írak. Engin viðbrögð hafa borist frá bandarískum stjórnvöldum vegna árásarinnar en AP-fréttastofan hefur eftir ónafngreindum manni innan bandaríska hersins að sérsveitir hafi fylgst með skæruliðum tengdum al-Qaida fara yfir landamæri Íraks og Sýrlands. Þess vegna hafi Bandaríkjamenn tekið málin í sínar hendur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×