Lífið

Busta Rhymes haldið og sleppt

Bandaríski rapparinn Busta Rhymes, fékk heldur óblíðar móttökur á City flugvellinum í London í dag. Rapparinn var mættur á svæðið til að taka þátt í góðgerðatónleikum á ekki ómerkari stað en Royal Albert Hall. Honum var hins vegar stungið í steininn þegar hann steig út úr einkaþotunni þrátt fyrr að vera með fullgilt atvinnuleyfi í Bretlandi. Lögregla gaf þá skýringu að Busta ætti einhver óútkljáð mál heima fyrir gagnvart þarlendri lögreglu.

Lögreglumenn gáfu lítið fyrir það að stjarna væri á ferð og var honum stungið í steininn á flugvellinum og munu fimm vopnaðir verðir hafa gætt hans. Tónleikahaldarar mótmæltu hástöfum en löggan gaf sig ekki og því var brugðið á það ráð að hóa í annan rappara, Ludacris, sem stökk upp í flugvél til þess að fylla skarð Busta á tónleikunum.

Eftir stapp sem tók nokkrar klukkustundir ákvað dómari að sleppa Busta, þar sem engin ástæða virtist vera fyrir þvergirðingshætti lögreglunnar á flugvellinum. Dómarinn benti meðal annars á þá staðreynd að Busta hafi haldið tónleika í ágúst í London og þá hafi hann ekki átt í nokkrum vandræðum með að komast inn í landið. Þrátt fyrir smávægilegan sakaferil hefði Busta ekki komist í kast við lögin síðustu misserin og því ákvað dómarinn að sleppa honum úr haldi.

Ekki er hinsvegar ljóst á þessari stundu hvort Ludacris hafi farið fýluferð yfir Atlantsála, eða hvort honum hafi verið leyft að taka lagið í Royal Albert Hall.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.