Erlent

Sýrlandsárásin var gerð til að stöðva ferðir vígamanna

Bandarískur embættismaður segir að þeir hafi gert árás á Sýrland til þess að stöðva ferðir erlendra vígamanna þaðan til Íraks. Átta manns féllu í árásinni.

Bandarísk stjórnvöld hafa raunar enn ekki viðurkennt að hafa verið að verki þegar fjórar orrustuþylur réðust á býli innan sýrlensku landamæranna. Embættismaður í varnarmálaráðuneytinu sem óskaði nafnleyndar sagði hinsvegar við Associated Press fréttastofuna að þeim hefði ekki tekist að stöðva ferðir erlendra vígamanna tengdum al Kaida yfir landamærin.

Yfirmaður bandaríska hersins í vesturhluta Íraks lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum að þeir væru að stórauka aðgerðir við landamærin sem væru eins og galopið hlið fyrir erlenda vígamenn. Fyrrnefndur embættismaður í varnarmálaráðuneytinu sagði að Sýrlendingar hefðu ekki sinnt endurteknum óskum um að herða eftirlit á landamærunum. Því hefði herinn tekið málið í sínar hendur.

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa fordæmt árásina og kallað sendifulltrúa Bandaríkjanna í Damaskus á sinn fund til að krefjast skýringa. Bandaríkjamenn eru þarna í sama vanda og í Afganistan, þar sem hersveitir Talibana leita skjóls innan landamæra Pakistans. Yfirvöld í Pakistan hafa harðbannað að bandarískar hersveitir láti til sín taka þar í landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×