Lífið

Hefner vill Ásdísi í Playboysetrið

MYND/ArnoldStúdio

„Það verður gaman að kíkja þarna, ég bjóst nú ekkert við því að fá boð," segir fyrirsætan Ásdís Rán, sem hefur verið boðið í partý í hinu fræga Playboysetri um næstu helgi.

Einu til tvisvar sinnum á ári heldur Playboykóngurinn sjálfur, Hugh Hefner, einkapartý í setrinu, og þangað kemst ekki hver sem er. Aðstoðarkona Hefners hafði samband við Ásdísi til að bjóða henni í partýið, en ekki var þó björninn unninn með því.

„Það kemst enginn þarna inn öðruvísi en að sé búið að samþykkja þá. Í framhaldi af boðinu þurfti að senda þeim myndir og allar upplýsingar um mig," segir Ásdís. Hún segir að auk víðfrægra Playboy-skutla mæti margar skærustu stjörnur Hollywood - karlkyns að minnsta kosti - í samkvæmið.

Ásdís hefur ekki setið fyrir í Playboy, en hún var ólétt um árið þegar blaðið tók myndaþátt á Íslandi. Hún segir það þó alveg koma til greina.

„Ég verð bara að skoða það þegar tilboðið kemur," segir Ásdís hlæjandi. „Ég er ekkert að sækjast eftir því, en maður íhugar alltaf stóra summu af peningum," segir Ásdís, og bætir við að óþekktar stelpur fái um tvær milljónir fyrir myndir í blaðið.

„Það eru margar stelpur sem fara þarna með þann draum að verða einhverjar Playboystjörnur" segir Ásdís, aðspurð um það hvort eitthvað sé að græða á partýinu. „Ég fer þarna með það að markmiði að ná í einhver viðskiptatengsl. Og kannski fá smá smakk af stjörnuheiminum."

Hægt verður að lesa nánar um ferð Ásdísar á blogginu hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.