Lífið

Rafvirki vill kynnast einstæðri milljónamóður

Breki Logason skrifar
Rafvirki að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Rafvirki að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. MYND/Úr safni

„Óska eftir að kynnast 2 barna móður á höfuðborgarsvæðinu...ps. tölurnar 2,5,13,20,21 þurfa að tengjast henni." Svona hljómaði smáauglýsing í Fréttablaðinu í morgun. Þar stendur ennfremur að frekari upplýsingar gefur Ágúst og undir er símanúmer.

„Mér heyrist á öllu að einhver sé að gera grín í mér," segir Ágúst Einar Eysteinsson rafvirki frá Hómavík sem nú er búsettur í Reykjavík.

Símtal blaðamanns var fyrsta símtalið sem Ágúst fær vegna auglýsingarinnar í dag en hann hafði engan sérstakan grunaðann um verknaðinn. Ágúst sem er 25 ára gamall er einhleypur og segist myndu taka það til íhugunar ef hann fengi símtal frá einni einstæðri tveggja barna móður.

„Það væri nú ekki verra ef það fylgdu einhverjir peningar með, ég bíð því bara spenntur við símann," segir Ágúst en tölurnar sem fylgja auglýsingunni er vinningstölurnar úr Lottóinu á laugardaginn.

Á vef íslenskrar getspár kemur einmitt fram að það hafi verið einstæð tveggja barna móðir sem hafi dottið í lukkupottinn sl. laugardag. Vann hún fjórfaldan pott í lottóinu og fær tæpar 21 milljón í sinn hlut.

„Konan er búin að vera áskrifandi að tveimur röðum í lotto í mörg ár en tölurnar eru afmælisdagar fjölskyldunnar.......Það var því mikil gleði í morgun þegar að konan fékk staðfest í síma að það væri hún sem hefði unnið og væri nú 21 milljón krónum ríkari heldur en í síðustu viku," segir ennfremur í fréttinni á vef Íslenskrar Getspár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.