Innlent

Valgerður minnist Rúna Júl

Valgerður Sverrisdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir.

Rúnar Júlíusson hefur verið hluti af lífi Valgerðar Sverrisdóttur, formanns Framsóknarflokksins, frá Kvennaskólaárum hennar.

,,Hann hefur verið hluti af lífi mínu frá unglingsárunum þegar við vinkonurnar í Kvennó áttum hann sem átrúnaðargoð og dýrkuðum Hljóma," segir Valgerður í pistli á heimasíðu sinni.

Rúnar lést í nótt af völdum hjartaáfalls. Fjölmargir hafa minnst hans í dag með hlýum orðum. Bæði fólk sem þekkti Rúnar persónulega og aðrir sem hrifust af tónlist hans. Valgerður er ein af mörgum sem hrifust af tónlistinni og tengir góðar minningar við hana.

Valgerður segir að það sé margt að minnast frá sjöunda áratugnum. Bítlarnir komu fram á sjónarsviðið og ollu byltingu. ,,Og við eignuðumst okkar eigin Bítla, nefnilega Hljóma frá Keflavík."

Ráðherran fyrrverandi rifjar upp á að sunnudögum hafi verið haldinn böll fyrir unglinga í Skátaheimilinu við Snorrabraut og þar hafi Hljómar spilað.

,,Þar mættum við vinkonurnar og tókum fullan þátt í gleðinni. Og við gerðum meira. Við biðum fyrir utan Glaumbæ þar sem Hljómar æfðu til að geta horft á þá ganga frá húsinu og út í Bensinn sem var hinn eini sanni Hljómabíll og bar einkennisstafina Ö-982."

Valgerður segist hafa átt sérstaka Hljómabók þar sem hún safnaði myndum af Hljómum og öllu sem hægt var að tengja við hljómsveitina. ,,Þessi bók er nú í vörslu tónlistarsafnsins í Reykjanesbæ. Það var Rúnar sem veitti bókinni viðtöku fyrir hönd safnsins.

Lífið skiptist í tímabil, að mati Valgerðar. ,,Eitt af tímabilunum í mínu lífi er tímabilið með Hljómum frá Keflavík. Blessuð sé minningin um Rúnar Júlíusson."

Pistil Valgerðar er hægt að lesa hér.






Tengdar fréttir

Rúnar Júlíusson er látinn

Rúnar Júlíusson tónlistarmaður og útgefandi lést aðfararnótt föstudagsins 5. desember af völdum hjartaáfalls. Útgáfufyrirtæki hans Geimsteinn hélt árlega útgáfukynningu sína á veitingastaðnum Ránni fimmtudagskvöldið 4. desember þar sem listafólk útgáfunnar var saman komið. Rúnar var að fara á svið til að syngja og var að teygja sig eftir gítarnum þegar hann kenndi sér meins. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann andaðist. Guðmundur Rúnar Júlíusson fæddist í Keflavík 13. apríl 1945, sonur Júlíusar Eggertssonar múrarameistara og Guðrúnar Stefánsdóttur Bergmann.

Hemmi og Bó minnast Rúnars Júlíussonar

Einn af risum íslenskrar dægulagartónlistar, Rúnar Júlíusson, er fallinn frá. Félagar hans segja að hans verði sárt saknað og leitun sé að eins góðum vini.

Mikill missir

„Það eru bara fáir útvaldir sem fá að kveðja svona, þegar þeir eru að gera sig klára að fara á svið," segir Bubbi Morthens, samstarfsmaður Rúnars Júlíussonar til margra ára. „Auðvitað hefði ég viljað vera með Rúnari í 10-15 ár í viðbót ef heilsa hans hefði leyft, en úr því þetta þetta er orðin staðreynd, þá er miklu meiri gleði í hjarta mínu að hafa fengið að kynnast Rúnari en sorg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×