Innlent

Vilja klára vinnu við hollenska lánið

Wouter Bos er fjármálaráðherra Hollendinga.
Wouter Bos er fjármálaráðherra Hollendinga.
Hollendingar leggja áherslu á að ljúka vinnu varðandi sameiginlega viljayfirlýsingu þeirra og Íslendinga sem fjármálaráðherrar ríkjanna gáfu út þann 11. október síðastliðinn. Yfirlýsingin miðar að því að Hollendingar láni Íslendingum til þess að unnt verði að standa skil á greiðslum úr tryggingasjóði innistæðueigenda til hollenskra sparifjáreigenda. Hendrieneke Bolhaar, talskona Wouter Bor, fjármálaráðherra Hollands, segir í samtali við Vísi að Hollendingar leggi á það áherslu að ljúka þessari vinnu eins fljótt og auðið er.

Bolhaar sagði í viðtali við fréttastofu AFP í gær að Íslendingar þyrftu að standa við þær skuldbindingar sem þeir hefðu þegar gert við ríki varðandi Icesave, áður en þeir fái aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þegar Vísir spurði Bolhaar hvort eitthvað hafi breyst frá því viljayfirlýsingin hafi verið gefin út sagði hún svo ekki vera, hins vegar þurfi að ganga frá þeim málum með lögformlegum hætti. Aðspurð hvort það þýði að það þurfi að gerast áður en Hollendingar geti stutt beiðni Íslendinga svarar hún: „Við viljum bara klára þetta eins fljótt og auðið er."

Hollenska viðskiptablaðið NRC greinir svo frá því í dag að samkvæmt heimildum sínum sé íslenska ríkisstjórnin að íhuga að afþakka lánið frá Hollendingum. Blaðið segir yfirvöld á Íslandi vilja bíða með lántökur vegna Icesave uns dómstólar í Hollandi og Bretlandi úrskurða hvort þarlendir eftirlitsaðilar hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni varðandi Icesave og Landsbankann.

Ekki náðist í Árna Mathiesen fjármálaráðherra þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×