Enski boltinn

Torres er sjóðandi heitur

Benitez var ánægður með landa sinn Torres
Benitez var ánægður með landa sinn Torres NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez stjóri Liverpool var ánægður með baráttuhug sinna manna í dag þegar þeir unnu upp tveggja marka forystu Manchester City í síðari hálfleik og tryggðu sér 3-2 sigur.

"Þetta var fínn leikur fyrir stuðningsmennina. Við gerðum of mörg mistök í fyrri hálfleiknum og ég talaði um það við strákana að við ættum möguleika ef við næðum að skora mark. Það er mikilvægt að sýna karakter þegar liðið er að spila undir getu," sagði Benitez og hrósaði framherjum sínum.

Um Fernando Torres hafði hann þetta að segja. "Hann er sjóðheitur núna og það kemur sér vel fyrir okkur, en hann hefur ekki breytt neinu í sínum leik," sagði Benitez, en Torres var þarna að skora fjórða mark sitt í síðustu tveimur leikjum.

Hollendingurinn Dirk Kuyt var hetja Liverpool og skoraði sigurmarkið í leiknum. "Hann átti skilið að skora. Hann skorar í Meistaradeildinni og allir eru ánægðir fyrir hans hönd. Aðalatriðið í dag var þó vinnusemin í liðinu," sagði Spánverjinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×