Innlent

Heimild til að aflétta bankaleynd til staðar

Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, telur mikilvægt að halda til haga að réttarstaðan sé allt önnur í bönkunum nú en áður.
Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, telur mikilvægt að halda til haga að réttarstaðan sé allt önnur í bönkunum nú en áður.

Bankaleynd er háð takmörkunum og lagaramminn veitir nú þegar ýmsar heimildir til að aflétta henni. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, HR, bendir á að upplýsingar um fjárhagsmál séu ekki skilgreindar sem sérstaklega viðkvæmar persónuupplýsingar í lögum um persónuvernd. Mörg lagasetningin í þjóðfélaginu undanfarið höggvi nær réttindum borgaranna en lög sem væru sett til að afnema höft á upplýsingagjöf, til dæmis til rannsóknarnefndar.

Oddný Mjöll segir að lagasetning undanfarið sé gjarnan rökstudd með því að aðstæður séu sérstakar og því þurfi að veita ríkinu meira svigrúm en ella til nauðsynlegra ráðstafana vegna almannahagsmuna. Þetta sjónarmið segir hún að sé gilt en að sama skapi sé ástæða til að aflétta bankaleynd innan skynsamlegra marka, til dæmis með nýrri löggjöf í ljósi aðstæðna.

Ef bankaleynd yrði aflétt með lagasetningu í þágu rannsóknar færi fram mat á nýju löggjöfinni eins og hverri annarri löggjöf gagnvart meginreglum um vernd persónuupplýsinga og almannahagsmuna. „Ef rannsókn varðar öll atvik í aðdraganda bankahrunsins í landinu þá er ekkert ólíklegt að slík löggjöf stæðist slíkt mat,“ segir hún. „Maður skyldi ætla að það séu ríkir almannahagsmunir að upplýsa hvað liggur til grundvallar bankahruninu og hvaða starfsemi á sér stað innan bankanna sem nú eru ríkisbankar.“

Oddný Mjöll telur mikilvægt að halda því til haga að réttarstaðan sé allt önnur í bönkunum nú en áður. Nú sé verið að höndla með fé frá ríkinu og þess vegna séu það ríkir almannahagsmunir að hægt sé að hafa eftirlit með og rannsaka atburðarásina. Rannsóknarnefndir þurfi að hafa heimildir til að skoða nýju bankana.

Sigurður Tómas Magnússon, sérfræðingur við HR, segir að það sé „ekkert sérstakt í sjálfu sér þó bankaleynd sé mikið flaggað“ í þjóðfélaginu núna enda takmarkist hún af öðrum lagaákvæðum. Sama gildi um bankaleynd og trúnaðar- og þagnarskyldu ýmissa stétta á borð við presta og lækna. Í opinberu máli geti dómari metið hvort þagnarskylda heldur miðað við hagsmuni í málinu eða ekki.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að mikilvægt sé að ekki sé gert lítið úr bankaleynd. Það grafi undan trúverðugleika fjármálakerfisins til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×