Enski boltinn

Hull í þriðja sæti eftir sigur á West Ham

Michael Turner skorar sigurmarkið
Michael Turner skorar sigurmarkið NordicPhotos/GettyImages

Hull City heldur áfram að slá í gegn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Í dag bætti liðið enn einum sigrinum gegn Lundúnaliði í safnið þegar það lagði West Ham 1-0.

Hull vann þarna fjórða leik sinn í röð og um leið fjórða sigurinn á Lundúnaliði á leiktíðinni eftir að hafa lagt Fulham, Tottenham og Arsenal.

West Ham var betri aðilinn í fyrra hálfleik og þar fór fremstur í flokki Craig Bellamy sem var í fyrsta skipti í byrjunarliði Hamranna í deildinni.

En lærisveinar Phil Brown komust betur inn í leikinn eftir hlé og það bar árangur á 51. mínútu þegar Michael Turner skallaði hornspyrnu Andy Dawson í netið og tryggði liðinu sigur.

24,896 áhorfendur mættu á KC Stadium til að fylgjast með leiknum og er það metáhorfendafjöldi á vellinum.

Hull er komið í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar með sigrinum og hefur 17 stig, þremur minna en Chelsea og Liverpool. West Ham er í áttunda sæti með 12 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×