Fótbolti

Arnar á leið aftur til Belgíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson.
Arnar Þór Viðarsson.

Arnar Þór Viðarsson segir 99 prósent öruggt að hann muni í dag eða á morgun ganga til liðs við belgíska úrvalsdeildarfélagið Cercle Brugge.

Þetta sagði hann í samtali við Vísi í dag en hann lék með Lokeren í Belgíu í átta tímabil áður en hann samdi við Twente í Hollandi árið 2006. Hann fékk lítið að spila þar og var nýliðið tímabil í láni hjá De Graafschap sem einnig leikur í hollensku úrvalsdeildinni.

De Graafschap hafði áhuga á að halda Arnari og bauð honum tveggja ára samning en Arnar ákvað frekar að semja við Cercle Brugge.

„Það er enn verið að bíða eftir grænu ljósi frá báðum félögunum. Ég þarf að gera starfslokasamning við Twente og Cercle þarf að greiða einhverja upphæð fyrir mig. Það er afar líklegt að þetta gangi í gegn á næstu dögum en það er ekkert öruggt fyrr en allir pappírar eru undirritaðir."

Arnar Þór hefur samþykkt þriggja ára samning við Cercle með möguleika á einu ári til viðbótar. „Það hentar mér mjög vel að fara aftur til Belgíu þar sem ég var lengi og þekki allt mjög vel. Félagið hafði líka mikinn áhuga á mér og gengu beint til verks. Það er jákvætt ef maður finnur fyrir trausti og vilja af hálfu hins félagsins."

„Cercle Brugge er litla félagið í Brugge og varð í fjórða sætinu í deildinni nú í ár. Þetta er félag sem hefur verið um miðja deild undanfarin ár en voru að margra mati að spila besta fótboltann í deildinni," sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×