Erlent

Fjórum skipum rænt á fimm dögum

Fjórum skipum hefur verið rænt undan ströndum Sómalíu síðan á laugardag. Þar á meðal er eitt af stærstu skipum heims.

Hið þrjúhundruð þúsund tonna olíuskip Sirius Star liggur nú fyrir akkerum undan bænum Eyl í Sómalíu. Eyl virðist vera einskonar miðstöð sjóræningja sem hafa rænt 34 skipum það sem af er þessu ári.

Þar liggja einnig tíu eða tólf önnur skip sem rænt hefur verið undanfarið. Ræningjarnir bíða eftir að fá greitt lausnargjald fyrir skipin. Þeir hafa þegar fengið tugi milljóna dollara í lausnargjald fyrir skip sem búið er að sleppa.

Um borð í Sirus Star eru um tvær milljónir fata af olíu sem verið var að flytja frá Sádi-Arabíu til Bandaríkjanna. Lausnargjald fyrir skipið gæti verið 250 milljónir dollara.

Nokkru utar en skipin sem hefur verið rænt eru vestræn herskip sem geta ekkert aðhafst. Þau hafa ekki umboð til þess að ráðast um borð í skip sem búið er að ræna.

Það háir mjög Vesturlöndum í baráttu við sjóræningjana að það er liðin tíð að það sé einfaldlega hægt að gera árás og hengja þá. Alls konar mannréttindasáttmálar koma þarna við sögu.

Skipherrar á vestrænum herskipum geta jafnvel ekki framselt sjóræningjanna til stjórnvalda í heimalöndum þeirra. Það gæti verið brot á mannréttindum sjóræningjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×