Innlent

Borgarstjóri heimsótti Réttarholtsskóla á forvarnardeginum

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, ásamt nokkrum nemendum Borgarholtsskóla.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, ásamt nokkrum nemendum Borgarholtsskóla.

Forvarnardagurinn er nú haldinn í þriðja sinn, undir kjörorðinu „Taktu þátt! Hvert ár skiptir máli". Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri heimsótti Réttarholtsskóla í morgun, en þar voru nemendur í níunda bekk skólans samankomnir á sal til að horfa á fræðslumyndband í tengslum við átakið.

Hanna Birna ávarpaði ungmennin og sagði boðskap dagsins vera ákaflega mikilvægan og það skipti miklu máli að taka þátt í átakinu því þá skilaði það árangri. Hún sagðist treysta unglingunum til að finna leiðir til að efla forvarnir því þau þekktu best sjálf hvað gæti virkað í þeim efnum. Hún hvatti þau einnig til samverustunda með fjölskyldunni og ræða við foreldra sína um þau málefni sem væru þeim ofarlega í huga. Það væri ótrúlega gott að tala um hlutina til að skilja þá betur.

Í dag munu 9. bekkingar í öllum grunnskólum landsins vinna í hópastarfi og koma sjálf með tillögur að því hvernig megi auka þátttöku þeirra í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og samveru með fjölskyldu, auk þess sem ungmennin velta upp hvað leiðir séu færar til að hvetja ungmenni til að fresta áfengisdrykkju og forðast að verða fíkniefnum að bráð á síðari stigum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×