Enski boltinn

Everton kemur Cahill til varnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tim Cahill fagnar marki sínu um helgina.
Tim Cahill fagnar marki sínu um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Miðvallarleikmaðurinn Tim Cahill hefur verið þó nokkuð gagnrýndur fyrir þá takta sem hann sýndi er hann fagnaði marki sínu gegn Portsmouth um helgina.

Cahill lagði saman hendurnar sínar eins og að hann væri handjárnaður og vildi þar með sýna bróður sínum, Sean, stuðning. Hann hlaut sex ára fangelsisdóm í janúar síðastliðnum fyrir líkamsárás.

Árásin átti sér stað fyrir utan næturklúbb í Lundúnum fyrir þremur og hálfu ári síðan og var Sean Cahill gefið að sök að hafa sparkað tvívegis í liggjandi með þeim afleiðingum að fórnarlambið blindaðist að hluta til.

Cahill tileiknaði bróður sínum markið og sagði talsmaður Everton að það væri undir hverjum og einum komið hvernig viðkomandi fagnaði marki sínu, svo lengi sem það bryti ekki reglur og lög.

„Ég er viss um að Tim gerði sér grein fyrir að það yrðu ekki allir ánægðir með gjörðir hans."

Markið sem hann skoraði var hans fyrsta mark fyrir Everton síðan í lok síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×