Enski boltinn

Forssell er leikmaður 28. umferðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mikael Forssell skoraði sína fyrstu þrennu um helgina og fékk vitanlega að eiga boltann.
Mikael Forssell skoraði sína fyrstu þrennu um helgina og fékk vitanlega að eiga boltann. Nordic Photos / Getty Images

Finninn Mikael Forssell er leikmaður 28. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar en hann skoraði þrennu fyrir Birmingham í 4-1 sigri liðsins á Tottenham.

Smelltu hér til að sjá myndband af Mikael Forsell, leikmanni 28. umferðar í ensku úrvalsdeildinni.

Þrenna Forrssell var einkar glæsileg en hann skoraði með skalla, hægri fóti og vinstri fóti.

Hann hefur átt við erfið meiðsli að stríða á ferlinum en hann hefur komið við sögu í 20 leikjum Birmingham til þessa á tímabilinu, þar af tólf í byrjunarliðinu. Hann hefur nú alls skorað í þeim sjö mörk.

Forssell er fæddur árið 1981 í Þýskalandi en hóf ferill sinn hjá HJK í Finnlandi þar sem hann lék sinn fyrsta deildarleik sextán ára gamall. Hann skoraði einnig grimmt með unglingalandsliðum Finnlands og vakti þar með athygli margra stórliða víða um Evrópu.

Hann var sautján ára gamall er hann samdi við Chelsea árið 1998. Þar var hann í sjö ár á samningi en var fimm sinnum á þeim tíma lánaður til annarra félaga. Fyrst tvívegis til Crystal Palace, þá Borussia Mönchengladbach og svo tvívegis til Birmingham.

Hann gekk svo formlega til liðs við Birmingham frá Chelsea árið 2005. Hann skoraði fimm mörk með Chelsea í 33 leikjum á ferlinum en hefur skorað 28 mörk í 91 leik fyrir Birmingham.

Hann var lánaður til Birmingham tímabilið 2003-4 þar sem hann fór mikinn og skoraði sautján mörk. Hann var aftur lánaður næsta tímabil en meiddist snemma illa á hné. Hann lék aðeins fjóra leiki það tímabilið og náði ekki að skora.

Í október árið 2006 meiddist hann svo öðru sinni á hné og var frá í nokkra mánuði. Hann þurfti að gangast undir aðgerð á báðum hnjám og var um tíma óttast að hann þyrfti að leggja skóna á hilluna.

Ekki kom til þess og hefur hann hægt og rólega verið að finna sitt gamla form að undanförnu. Það er vonandi að þrennan sem hann skoraði um helgina verði til þess að hann eflist enn fremur.

Nafn: Mikael Kaj Forssell

Fæddur: 15. mars 1981 í Steinfurt, Þýskalandi.

Lið: HJK (1997-1998), Chelsea (1998-2005, lánaður til Crystal Palace, Borussia Mönchengladbach og Birmingham) og Birmingham (2005-)

Númer: 9.

Lið 28. umferðar í ensku úrvalsdeildinni:

Markvörður: Brad Friedel, Blackburn

Vörn:

William Gallas, Arsenal

Ricardo Carvalho, Chelsea

John Terry, Chelsea

Miðja:

Owen Hargreaves, Manchester United

James Harper, Reading

Joe Cole, Chelsea

Michael Ballack, Chelsea

Sebastian Larsson, Birmingham

Sókn:

Matt Derbyshire, Blackburn

Mikael Forssell, Birmingham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×