Lífið

Frikki mun taka alla þessa kúkalabba í fjósið, segir Sverrir

ea skrifar
"Þau mala náttúrulega keppnina," segir Sverrir Stormsker.
"Þau mala náttúrulega keppnina," segir Sverrir Stormsker.

"Ég hef fylgst af alveg gríðarlegum áhuga með hinni miklu og stórbrotnu sigurgöngu Eurobandsins í Serbíu. Áhugi minn er óslökkvandi á öllu sem þeim viðkemur. Ég las einhversstaðar að þau hefðu verið gasalega vinsæl á einhverri sveitabjórkrá og ennþá vinsælli á einhverju flottu götuhorni þarna úti og það er ekki svo lítið," segir Sverrir Stormsker aðspurður um hans skoðun á Eurobandinu sem keppir fyrir Íslands hönd í Eurovision í ár.

 

"Svo var víst einhver latexbakpoki sem bað Frikka um eiginhandaráritun á gasalega vinsælu almenningssalerni þannig að mér sýnist þau bara vera búin að slá rækilega í gegn og meika það svo um munar."

"Samkvæmt þessu þá mala þau náttúrulega keppnina. Svo skilst mér að þau séu líka búin að vera á fullu í ræktinni og séu samanlagt komin niður í 200 kíló og ekki skemmir það fyrir. Það gæti meiraðsegja gert gæfumuninn í keppni sem þessari, ég tala nú ekki um ef þau verða þar að auki bæði brjóstahaldaralaus og í litríkum fötum með mikið glimmer í andlitinu og ennþá meira gel í hárinu og gríðarlega mikið meik í kringum augun."

Eurovisionfarar 1988. Viddi í Greifunum, Guðmundur Jónsson, Sverrir Stormsker, Edda Borg, Þorsteinn í Stjórn.

"Þá náttúrulega pakka þau þessu saman. Pottþétt mál. Verst að ég man ekkert eftir laginu en það er auðvitað aukaatriði. Ég ætla að veðja aleigunni á þau. Þau munu rúlla þessu upp. Frikki mun taka alla þessa kúkalabba í fjósið. Ekki nokkur einasta spurning," segir Sverrir Stormsker sem ásamt Stefáni Hilmarssyni var valinn fulltrúi Íslendinga í Eurovision árið 1988 með lagið Þú og þeir (Socrates).

Lagið lenti í 16. sæti og vinningslagið það ár var frá Sviss, Ne Partez Pas Sans Moi.

Socrates á Youtube

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.