Afstaða, félag fanga, segir skýringar lögreglu á handtöku Hauks Hilmarssonar á föstudaginn, sem flaggaði bónusfána á Alþingishúsinu fyrir tveimur vikum, ótrúlegar.
Handtaka Hauks vakti mikla reiði en henni var mótmælt fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu síðdegis í gær. Hópur mótmælenda braust sér leið inn í lögreglustöðina en lögreglumenn svöruðu með því að sprauta piparúða á hópinn.
Lögregla gaf þær skýringar á handtöku Hauks að hann hafi verið eftirlýstur vegna vangoldinnar sektar sem hann fékk fyrir að mótmæla vð álverið á Reyðarfirði árið 2006.
Félag fanga sá ástæðu til að senda frá sér sérstaka yfirlýsingu um málið í gærkvöldi þar sem fram kemur að félagið sjái ekki nokkurt sannleikskorn í þessari útskýringu.
Samkvæmt félaginu eru fangelsi landsins svo yfirfull að engar líkur séu á að sektarfangar séu boðaðir til afplánunar með þessum hætti. Þá bendir félagið á að nú bíða fjölmargir einstaklingar með mun alvarlegri brot á bakinu afplánunnar.
Afstaða til ábyrgðar var stofnað af föngum á Litla - Hrauni 23. janúar 2005.