Innlent

Þurfum að treysta hvert öðru

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson

„Þetta er löggjöf sem var brýn til að tryggja gjaldeyrisforða og styrkja stöðu krónunnar,“ segir Björgvin G. Sigurðsson um ný lög um gjaldeyrishöft. „Aðrar væringar um önnur mál verða að bíða betri tíma. Þetta er beint framhald af neyðarlögunum,“ segir hann aðspurður hvort lagasetningin sé í raun traustsyfirlýsing við Seðlabankann og bankastjórn hans.

„Nú erum við í þannig aðstöðu að við þurfum að vinna sem eitt, stofnanir og stjórnvöld. Það var nauðsynlegt að setja þessi lög um gjaldeyrisflutninga og nú þurfum við að treysta hvert öðru. Það er ekki hægt að leyfa sér annað en að þjappa sér saman nú.“

Björgvin segist vongóður um að hér muni fljótlega aftur verða haftalaust gengisumhverfi. „Höftin verða afnumin um leið og aðstæður leyfa,“ segir hann. „Krónan mun ná sér á strik og spegla raunstærðir í okkar efnahagskerfi. Krónan mun jafna sig og við höfum ekki aðra valkosti en að ná eðlilegri verðmynun á hana.“

Lögin, sem gilda út samkomulagið við AGS, hefjist með ýtrustu aðgerðum, en hratt muni draga úr þeim eftir því sem ástandið batni. „Ég tel að þetta þurfi að vera með þessum hætti til að hafa þau áhrif sem lögin eiga að hafa,“ segir Björgvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×