Lífið

Efnahagssorgunum drekkt í kampavíni?

Íslendingar draga hvergi saman seglin þrátt fyrir að spár alþjóða matsfyrirtækja gefi til kynna að efnahagslífið rambi á barmi hruns. Nýskráðir bílar voru voru tæpum fjörtíu prósentum fleiri fyrstu tvo mánuði ársins en á sama tíma í fyrra, heildar kreditkortavelta jókst um rúman fjórðung í janúar og kreditkortanotkun erlendis um rúm tuttugu og tvö prósent frá sama tímabili í fyrra.

Lúxusvörur á borð við kampavín virðast heldur ekki vera meðal þess sem fólk getur hugsað sér að sleppa þó að skóinn kreppi. Sala á því dróst ekki saman í byrjun árs frekar en öðru, heldur jókst hún.

Janúar og febrúar eru almennt ekki þeir mánuðir sem landinn svolgrar hvað mest freyðivín, hvorki kampavín né önnur, og munurinn því ekki mikill. Tæpir fimmtán hundruð lítrar af kampavíni seldust þessa tvo mánuði í ár. Í fyrra voru þeir rúmlega þúsund, og rúmir fjórtán hundruð árið áður.

Ástand efnahagsmála virðist raunar lítil áhrif hafa á áfengisneyslu. Sala, talin í hreinu áfengi, var tæplega ein og hálf milljón lítra í fyrra. Á hátindi internetsprengjunnar árið '99 var hún tæpir milljón lítrar og hefur aukist jafnt og þétt frá síðan, að því er virðist óháð hvernig viðrar í fjármálaheiminum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.