Lífið

Ronaldoskórnir fóru á 240 þúsund á Nordica í gær

Hátt á tvær og hálf milljón söfnuðust á uppboði Shoe for Africa samtakanna sem haldið var á Hilton Nordica hótelinu í gær. Skórnir hans Cristiano Ronaldo voru slegnir á 240 þúsund krónur.

Ágóði söfnunarinnar rennur til byggingar barnaspítala í Kenía. Meðal þeirra muna sem boðnir voru upp voru knattspyrnuskór töframannsins Cristiano Ronaldo sem leikur með Manchester United og voru þeir slegnir á 240 þúsund krónur.

Þá safnaðist einnig dágóð upphæð fyrir læknaslopp leikarans Anthony Edwards sem lék um árabil í Bráðavaktinni. Edwards sá sjálfur um uppboðið og bauðst hann til að gefa eigið blóð í sloppinn en því var góðfúslega hafnað.

Þess má geta að það var eiginkona leikarans sem fékk skóna hans Ronaldos, en sonur þeirra hjóna er mikill aðdáandi Portúgalans knáa. Einnig voru hugmyndir uppi um að selja skóna í sitthvoru lagi, en þannig hefði mátt tvöfalda upphæðina þar sem eftirspurnin var töluverð.

Alls ein milljón söfnuðust fyrir sölu á munum á uppboðinu en orkudrykkjaframleiðandinn Soccerade, sem að hluta er í eigu Íslendina, gaf hálfa milljón í söfnunina. Soccerade er nýr orkudrykkur sem kemur á markað eftir helgi og er það Ronaldo sjálfur sem kemur að auglýsingarherferð dykkjarins.

Enn er hægt að gefa í söfnunina. Þeir sem vilja gefa þúsund krónur geta hringt í síma 907-1001, þrjúþúsund krónur í síma 907-1003 og fimm þúsund krónur í síma 907-1005.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.