Innlent

Valgerður virðir ákvörðun Bjarna

MYND/GVA

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segist virða ákvörðun Bjarn Harðarsonar, flokksbróður síns, að segja af sér þingmennsku vegna bréfs sem hann hugðist láta senda fjölmiðlum undir nafnleynd og hafði að geyma harða árás á Valgerði.

Bjarni hugðist láta aðstoðarmann sinn senda bréfið undir nafnleynd en sendi óvart þau tilmæli ásamt bréfinu á alla fjölmiðla. Í harðorðu bréfinu, sem fylgir tölvupóstinum og undirritað er af tveimur framsóknarmönnum, er Valgerður minnt á ábyrgð hennar við einkavæðingu bankanna. Þá eru gerðar miklar athugasemdir við afstöðu Valgerðar gagnvart Evrópusambandinu.

Valgerður sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að það yrði erfitt fyrir Bjarna að sitja áfram og nú hefur komið á daginn að Bjarni ákveður að segja af sér. „Ég virði þessa ákvörðun Bjarna og tel hana í samræmi við hans málflutning. Hann hefur talað um að menn axli ábyrgð á gjörðum sínum og nú gerir hann það," segir Valgerður. Af hennar hálfu sé málinu lokið.

Aðspurð hvort hún telji að málið skaði flokkinn mikið segir Valgerður erfitt að segja. „Ég veit að það voru farnar að berast úrsagnir úr flokknum en ég veit ekki hver viðbrögðin verða eftir þessi nýjustu tíðindi. Við verðum að vona það besta," segir Valgerður.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×