Fótbolti

Varamenn Spánverja kæmust í liðið hjá mér

AFP

Lars Lagerback, landsliðsþjálfari Svía, fer ekki leynt með aðdáun sína á mótherjum sænska liðsins Spánverjum í D-riðlinum á EM á morgun.

Sigurvegari leiksins á morgun tryggir sér sæti í 8-liða úrslitunum á mótinu og Lagerback segist þekkja spænska liðið vel eftir að liðin mættust tvívegis í riðli okkar Íslendinga í undankeppninni.

"Við vitum allt um spænska liðið og styrk þess eftir undankeppnina," sagði Lagerback, en liðin unnu sitt hvorn leikinn, þar sem Svíar unnu 2-0 heima og töpuðu 3-0 úti.

"Spænska liðið heldur boltanum mjög vel og er stórhættulegt í sókninni. Við verðum að vera þolinmóðir á móti þeim eins og við vorum gegn Grikkjum. Spænska liðið er mjög sterkt og ég er viss um að ég myndi tefla mörgum af varamönnum þeirra fram í mínu liði ef þeir væru með sænskt vegabréf," sagði Lagerback léttur í bragði á blaðamannafundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×