Innlent

Segir til greina koma að leita að öðrum samstarfsaðila en Alcoa

Kristján L. Möller, samgönguráðherra og þingmaður Norðausturkjördæmis, segir vel koma til greina að leita að öðrum samstarfsaðila í stað Alcoa um álver við Húsavík. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Viljayfirlýsing Alcoa og Landsvirkjunar um álver á Bakka var ekki endurnýjuð nú um mánaðamótin og áformaðar rannsóknarboranir á næsta ári vegna orkuöflunar slegnar af. Þetta gerist á sama tíma og ráðamenn tala um að nýting orkuauðlinda verði meðal bjargráða Íslendinga úr kreppunni.

Kristján segir að enginn eigi áskrift að ákveðnum orkulindum hér á landi og að hans mati komi vel til greina að leita annað en til Alcoa. Ástandið í efnahagsmálum landsins sé þannig að allra leiða verði að leita til að auka atvinnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×