Íslenski boltinn

Boltavaktin: Þróttur - ÍA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Það er sannkallaður fallslagur á dagskrá Landsbankadeildar karla í dag og mun Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins fylgjast grannt með gangi mála.

Hægt er að smella á leikinn á forsíðu íþróttavefs Vísis til að opna beina lýsingu frá leiknum sem hefst klukkan 16.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti.

Einnig má fylgjast með á Miðstöð Boltavaktarinnar, visir.is/boltavakt, en þar er einnig hægt að smella á viðkomandi leik til að lesa nánar um hann.

Þetta er síðasti leikur nítjándu umferðar og gæti haft mikið að segja upp á framhaldið að gera í botnbaráttu deildarinnar.

Þróttur datt í gær niður í tíunda sæti deildarinnar þar sem að Fylkir vann 3-1 sigur á Grindavík. Bæði lið, Fylkir og Þróttur eru með nítján stig en Árbæingar með betra markahlutfall.

Sem fyrr eru það HK og ÍA sem eru í fallsætunum. HK er fjórum stigum á undan ÍA sem þýðir að Skagamenn geta ekki lyft sér úr botnsæti deildarinnar með sigri á dag.

Hins vegar er ljóst að ef ÍA vinnur ekki í dag hverfur sá litli vonarneisti sem Skagamenn eiga nánast algjörlega.

ÍA vann í síðustu umferð góðan sigur á Val á útivelli, 1-0. Þar áður hafði liðið ekki unnið í fjórtán leikjum í röð.

Þróttarar hafa heldur ekki átt góðu gengi að fagna undanfarið. Liðið tapaði 4-0 fyrir HK í síðustu umferð og hefur ekki unnið í sex leikjum í röð. Ekki síðan að Þróttarar unnu 4-3 sigur á Þrótti þann 21. júlí.

Það er því útlit fyrir mikinn spennuleik í dag og ljóst að ef Þróttarar vinna ekki í dag er falldraugurinn farinn að gera fullmikið vart við sig í Laugardalnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×