Innlent

Sakfelldur fyrir að neyða dreng til að fara í sturtu

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sakfellt Mann fyrir að hafa með yfirgangi og ruddalegum hætti í Íþróttamiðstöð Ólafsfjarðar fært dreng nauðugan úr fötunum og sett hann í sturtu í búningsaðstöðunni. Barnið hafði neitað að fara eftir húsreglum íþróttahússins um að fara í bað eftir íþróttaiðkun.

Maðurinn játaði sök fyrir dómi. Í niðurstöðu dómsins segir að samkvæmt starfslýsingu hefði hann meðal annars það verkefni að gæta nemenda almennt og líta eftir þeim og vísa þeim í bað og búningsklefa og fylgjast með því að nemendur færu eftir umgengnisreglum hússins. Hann hefði því visst agavald yfir drengnum sem starfsmaður í íþróttamiðstöðinni.

Segir dómurinn hins vegar að maðurinn hafi beitt því valdi harkalegar í þessu tilviki en efni stóðu til. Var ákvörðun um refsingu frestað og fellur hún niður haldi maðurinn skilorð í eitt ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×