Innlent

Magnús geðlæknir: Segist ekki á leiðinni í meðferð

Magnús Skúlason
Magnús Skúlason

Magnús Skúlason yfirgeðlæknir á Sogni segist ekki vera á leiðinni í meðferð eins og kom fram í fréttum Rúv í hádeginu. Í Fréttablaðinu í morgun er sagt frá því að landlæknisembættið sé með til rannsóknar mál þar sem Magnúsi er gert að sök að hafa ávísað ávanabindandi fíknilyfjum á menn án þeirrar vitundar. Magnús vill lítið tjá sig um málið en segist vera að meta stöðuna og gera viðeigandi ráðstafanir.

Í Fréttablaðinu segir Sigurður Guðmundsson landlæknir embættið líta málið sérlega alvarlegum augum. Þar kemur fram að um sé að ræða verulegt magn af amfetamíni og methylfentidati.

„Mér var ráðlagt af mínum yfirmanni, Sigurði Guðmundssyni, að taka veikindaleyfi til uppbyggingar og endurnæringar. Það er ekkert meðferð í venjulegum skilningi þess orðs."

Magnús er sagður hafa notað nöfn fyrrverandi fanga sem ekki þætti ótrúlegt að þyrftu á slíkum lyfjum að halda. Ávísaði hann lyfin á nöfnin án þeirra vitundar.

Samvkæmt heimildum Fréttablaðsins gaf Magnús þá skýringu á þessum gerðum sínum að hann hefði meðhöndlað háttsetta menn sem ekki vildu láta tengja nöfn sín við þessi lyf.

Í samtali við Vísi segist Magnús ekki kannast við þessar skýringar og þvertekur fyrir að hafa útvegað háttsettum mönnum umrædd lyf.

Í fréttum Rúv var því haldið fram að Magnús hafi notað eitthvað af lyfjunum sjálfur. Hann vill ekki svara þeim ásökunum í samtali við Vísi.

Að öðru leyti vildi Magnús lítið tjá sig um málið að svo stöddu og sagðist þurfa lengri tíma til þess að útskýra mál sitt. Það myndi hann jafnvel gera í ævisögu sinni sem von væri á einhvern daginn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.