Enski boltinn

Everton hélt jöfnu gegn United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Giggs reynir hér að ná boltanum af Steven Pienaar.
Ryan Giggs reynir hér að ná boltanum af Steven Pienaar. Nordic Photos / Getty Images

Everton náði 1-1 jafntefli gegn Manchester United í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Darren Fletcher kom United yfir á 22. mínútu fyrri hálfleiks en Marouane Fellaini jafnaði metin á 63. mínútu. United var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hefði getað skorað fleiri mörk en heimamenn létu til sín taka í þeim síðari og áttu skot í stöng skömmu eftir að þeir jöfnuðu metin.

Rio Ferdinand var í byrjunarliði United á nýjan leik en hann missti af leiknum gegn Celtic í Meistaradeildinni í vikunni. Wayne Rooney var sömuleiðis í byrjunarliðinu og ætlaði sér að skora sitt 100. mark á sínum gamla heimavelli en honum var skipt á velli á 70. mínútu, fljótlega eftir að hann fékk að líta gula spjaldið.

Louis Saha var í byrjunarliði Everton gegn sínu gamla félagi.

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og bæði lið gerðu sig líkleg til að skora. Hins vegar óx United ásmegin eftir því sem á leið og komst yfir með marki Darren Fletcher um miðbik fyrri hálfleiksins.

Hann fékk sendingu frá Ryan Giggs, lék á Joleon Lescott og sendi boltann í markið í gegnum fætur Tim Howard.

Howard var þó vel vakandi í marki Everton það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og kom í veg fyrir að United færi með meira en eins marks forystu í hléið.

Það var hins vegar allt annað að sjá til heimamanna í síðari hálfleik og þeir uppskáru mark eftir um 20 mínútna leik. Phil Neville átti sendingu frá hægri og Marouane Fellaini jafnaði metin með laglegu skallamarki.

Örfáum mínútum síðar nýtti Yakubu sér mistök Rio Ferdinand og komst í fínt skotfæri. Edwin van der Sar varði hins vegar boltann í stöngina og United slapp með skrekkinn.

Þetta reyndist besta færi leiksins til að skora sigurmark leiksins og niðurstaðan var því 1-1 jafntefli.

United mistókst þar með að komast upp í þriðja sæti deildarinnar og er enn í því fimmta en nú með fimmtán stig, einu stigi á eftir Arsenal.

Stigið var hins vegar afar kærkomið hjá Everton sem kom sér upp í þrettánda sætið úr því sextánda með níu stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×