Innlent

Vopnað rán á skrifstofu ABC í Kenía

Vopnað rán var framið á skrifstofu ABC-samtakanna í Nairóbí í Kenía. Eftir því sem segir í tilkynningu samtakanna er skrifstofa samtakanna á neðri hæð starfsmannahúss og voru þrjár konur í húsinu.

Sigurrós Friðriksdóttir, sem er íslenskur liðsmaður ABC, var ein á neðri hæðinni þegar fjórir vopnaðir menn komu inn í húsið. Þeir skipuðu Sigurrós að fara upp og þar bundu þeir konurnar og kefluðu og límdu fyrir munn þeirra á meðan þeir tóku allt fémætt.

Segir ABC að heimilið sé nú algjörlega peningalaust en um 260 börn búa nú á heimilinu. Vegna fjárskorts undanfarna daga og vikur hefur starfsfólk ABC verið að endurmeta aðstæður barnanna þar sem ekki hefur nægilegt rekstrarfé borist frá Íslandi.

Alls ganga nú um 600 börn í skóla í Nairóbí vegna hjálpar ABC. Biðlar ABC því til allra sem eru aflögufærir til að leggja inn á reikning samtakanna svo hægt verði að senda hjálp til Þórunnar Helgadóttur og hinna sem berjast nú fyrir tilvist ABC-heimilanna og skólanna sem yfir 12.000 börn reiða sig á. Reikningur sem leggja má inn á er nr. 1155-15-41411, kt. 690688-1589.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×