Innlent

Ferðamenn hafa neitað að borga

Kristján telur ekki að kreppan muni fæla frá sterkefnaða ferðamenn.
Kristján telur ekki að kreppan muni fæla frá sterkefnaða ferðamenn. Fréttablaðið/gva

Ferðamenn tíma sumir hverjir ekki lengur að fara í dýrari ferðir innanlands vegna þess hversu mjög landið hefur verið markaðssett sem ódýr áfangastaður. Þetta segir Kristján Kristjánsson hjá ferðaþjónustunni Mountain Taxi.

„Við erum að selja dýra vöru, sem eru þessar jeppaferðir okkar," segir Kristján. „Og við finnum fyrir því að fólk sé hætt að tíma að fara í þessar dýrari ferðir. Við höfum lent í því að fólk hefur neitað að borga," segir hann.

Kristján segir marga ferðamenn fá hálfgert áfall þegar þeir átta sig á því hvað ferðirnar kosta. Þeir eigi flestir von á að hér sé allt á gjafverði, eftir að hafa margir hverjir fengið ódýrt far til landsins og séð auglýsingar þar sem Ísland er kynnt sem afar ódýrt land vegna kreppunnar.

„Við breyttum okkar verðlagningu í evrur fyrir hálfu ári," segir Kristján. Þeir hafi hins vegar ekki lækkað verðið þegar krónan féll. Hann kallar eftir samráði um verðlagningu meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu. Ekki verði undan því vikist fyrir flest fyrirtæki að hækka sitt verð og best sé að gera það sem fyrst.

Kristján segist þó bjartsýnn fyrir hönd ferðaþjónustunnar og telur ekki að kreppan muni fæla frá sterkefnaða ferðamenn í leit að hágæða ferðaþjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×