Innlent

Enn beðið eftir handtökubeiðni

Ekki er kallað eftir upplýsingum um sakaferil útlendinga fyrr en þeir komast í kast við lögin hér á landi að sögn dómsmálaráðherra. Upplýsingar um sakaferil duga ekki til handtöku, en geta leitt til eftirlits af hálfu lögreglu.

Eins og fram hefur komið hefur pólskur karlmaður sem grunaður er um aðild að hrottalegu morði í Póllandi stundað byggingavinnu hér á landi um nokkurra mánaða skeið. Maðurinn kom hingað til lands eftir að handtökubeiðni var gefin út á hann í Póllandi í fyrra.

Íslensk lögregluyfirvöld hafa um nokkurt skeið vitað af ferðum mannsins hér á landi, en getur ekki aðhafst fyrr en hann er eftirlýstur á alþjóðavettvangi. Lögregluyfirvöld hér á landi hafa verið í stöðugu sambandi við lögregluyfirvöld í Póllandi og er handtökuheimildar beðið. Enn er óljóst hvenær sú heimild berst.



Fréttastofa sendi Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, fyrirspurn með tölvupósti um hvort eðlilegt geti talist að menn sem eru eftirlýstir í heimalandi sínu geti gengið frjálsir ferða sinna og stundað vinnu hér á landi. Björn svarar því til að hafi maður framið afbrot annars staðar en hér á landi, er ekki unnt að handtaka hann hér, nema þess sé óskað af því landi sem lýsir eftir manninum.



Þegar dvalarréttur Pólverja er skráður hér, þarf hann að leggja fram afrit af ferðaskilríki og staðfestingu á tilgangi dvalar, en það er ekki fyrr en eftir að hann kemst í kast við lögin hér á landi sem kallað er eftir upplýsingum um sakaferil hans í heimalandinu. Þær upplýsingar duga ekki til handtöku, en geta leitt til eftirlits af hálfu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×