Íslenski boltinn

Góðir hlutir gætu komið út úr því að falla

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir.
Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir. Mynd/Arnþór
Skagamenn féllu sem kunnugt er úr Landsbankadeild karla í fótbolta í fyrradag eftir markalaust jafntefli við KR á Akranesvelli en þetta er í þriðja skiptið í sögu ÍA sem félagið fellur úr efstu deild.

„Það voru náttúrulega gríðarleg vonbrigði að falla og það má ef til vill segja að KR-leikurinn hafi endurspeglað sumarið hjá okkur hvað varðar lánleysi og annað," segir Bjarki Gunnlaugsson, sem þjálfar Skagaliðið ásamt tvíburabróður sínum Arnari.

Arnar og Bjarki voru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki ÍA þegar félagið féll síðast úr efstu deild árið 1990 og Bjarki viðurkennir að tilfinningin að falla sé ekki góð, en það sem mestu máli skipti sé hvernig menn bregðist við þegar á móti blási.

„Reynslan sem slík að falla er vitanlega ekki góð eins og gefur að skilja en ef þú nýtir þér hana á réttan hátt, þá geta góðir hlutir komið út úr því. Fallið knýr menn til þess að setjast niður og fara yfir málin og fá heildarmynd eða -sýn á hlutina og setja liðinu skýr markmið," segir Bjarki.

ÍA vann 1. deildina með yfirburðum árið 1991 og vann svo Íslandsmeistaratitilinn í fimm ár í röð á árunum 1992-1996 þannig að fordæmið er vissulega til staðar á Akranesi.

„Við viljum eðlilega fara aftur upp í efstu deild sem fyrst, en aðalatriðið er þó að við verðum þá komnir með lið sem er tilbúið að gera einhverja hluti þar. ÍA var alltaf þekkt sem sóknarlið en okkur hefur fundist sú hugsun hafa týnst svolítið á síðustu árum og ef við höldum áfram sem þjálfarar þá viljum við endurvekja þá ímynd og þann hugsunarhátt uppi á Skaga," segir Bjarki.

Bjarki staðfesti að viðræður um að þeir bræður haldi áfram sem spilandi þjálfarar með Skagaliðinu væru vel á veg komnar.

„Það eru ýmis mál sem við sjálfir erum að skoða, til að mynda í sambandi við þjálfararéttindi. Það er verið að kanna fyrir okkur hvort við getum klárað þau þjálfararéttindi sem við þurfum að hafa fyrir næsta tímabil með námskeiðum hjá PFA á Englandi. Það myndi ganga fljótar fyrir sig en námskeið hérlendis og við virðum það náttúrulega að menn þurfi að hafa tilskilin réttindi til að þjálfa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×