Innlent

Vilja afturkalla sölu Fríkirkjuvegar 11

Þorleifur Gunnlaugsson.
Þorleifur Gunnlaugsson.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarráðsfulltrúi vinstri grænna, lagði í dag fram tillögu þess efnis að borgarráð samþykki að leita leiða til að afturkalla sölu á fasteigninni Fríkirkjuvegi 11 þar sem komið hefði í ljós að nýr eigandi ætti erfitt með að nýta eignina án verulegra breytinga á Hallargarðinum, almenningseign Reykvíkinga.

„Þetta mál var tekið af dagskrá og það er í þriðja sinn sem það gerist. Þetta er greinilega mikið vandræðamál fyrir valdhafana," sagði Þorleifur í samtali við Vísi. „Fríkirkjuvegur 11 er hluti af Hallargarðinum og það er mjög erfitt að skilja þetta tvennt að. Þeir sem gera hæsta tilboð, Novator, skilyrða tilboðið því að gerðar verði ákveðnar breytingar á Hallargarðinum, torg við kjallara verði lækkað og gerði bak við húsið rofið. Auk þess verði engu breytt í garðinum nema með þeirra samþykki," sagði hann enn fremur og bætti því við að þeir Novator-menn krefðust þess einnig að geta lokað garðinum algjörlega með aðstoð lögreglu ef ákveðnir gestir þeirra gistu þar.

Tæki sá áskilnaður til allra daga ársins nema 17. júní og menningarnætur. „Við leggjum til að hætt verði við þessa sölu og borgarstjóri var sammála okkur á sínum tíma um að það ætti ekki að selja þetta hús," sagði Þorleifur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×