Innlent

Synjun lögreglu vísað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Stefán Eiríksson lögreglustjóri
Stefán Eiríksson lögreglustjóri

Vísir.is hefur beðið úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fjalla um synjun Lögreglustjórans á Höfuðborgasvæðinu á beiðni Vísis um að fá upplýsingar um hversu mörg mál embættið hefur látið niður falla á þessu ári.

Vísir hefur fengið þær upplýsingar frá Ríkissaksóknara að lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hafi hætt rannsókn á um 700 málum í allsherjar tiltekt í málskrá sinni í byrjun þessa árs.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri neitar að staðfesta þessa tölu en hann hefur einnig neitað að verða við ósk Vísis um að taka saman upplýsingar um málið.

Beiðni Vísis um að fá nákvæmar og sundurliðaðar upplýsingar um hversu mörg mál voru látin niður falla var hafnað.

Í svörum Stefáns og starfsmanna hans við ítrekuðum beiðnum Vísis um upplýsingar er því haldið fram að það sé of flókið mál að taka saman þau gögn sem Vísir hefur óskað eftir.

Það hefur meðal annars verið nefnt að tölvukerfi embættisins bjóði ekki upp á þann möguleika. Vísir sættir sig ekki við þessi svör og hefur því farið fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fjalli um málið og skeri úr um lögmæti synjunar Stefáns og embættis hans.






Tengdar fréttir

Tiltekt nauðsynleg til að auka skilvirkni

Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir það mikilvægt að embættið festist ekki í gömlum kærumálum þar sem á litlu er að byggja. Nauðsynlegt sé að auka skilvirkni í meðferð kærumála.

Lögreglan lét 700 mál niður falla á einu bretti

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lét um 700 kærumál niður falla á einu bretti í byrjun þessa árs. Þetta var gert til þess að hreinsa til í málaskrá hin nýstofnaða embættis sem varð til með sameiningu lögreglunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×