Innlent

Lögreglan lét 700 mál niður falla á einu bretti

Andri Ólafsson skrifar
Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lét um 700 kærumál niður falla á einu bretti í byrjun þessa árs.

Þetta var gert til þess að hreinsa til í málaskrá hin nýstofnaða embættis sem varð til með sameiningu lögreglunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Í kjölfarið varð sprenging í kærum til Ríkissaksóknara en þangað geta þeir leitað sem ósáttir eru með þá ákvöðrun lögreglu að láta mál sín niður falla.

Alls bárust Ríkissaksóknara 23 kærur í febrúar á þessu ári þar sem athugasemdir voru gerðar við ákvörðun lögreglunnar um að hætta rannsókn á kærumálum. Til samanburðar má geta að aðeins fjórar kærur bárust á sama tíma í fyrra

Það voru lögfræðingar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, með Jón H.B. Snorrason í fararbroddi, sem tóku ákvörðun um hvaða mál skyldi hætta að rannsaka, að höfðu samráði við yfirmenn rannsóknardeilda.

Ákvarðanir voru teknar með tilliti til þess hvort líklegt væri að ákært yrði í viðkomandi málum eða hvort að sakfelling næðist.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir að ráðgert sé að taka aftur til í málaskrá embættisins í byrjun næsta árs. Það sé nauðsynlegt að fara reglulega yfir málaskrána svo ekki sé verið að halda málum opnum sem ekki munu leiða til sakfellingar. Kærumál hjá embættinu skipta þúsundum.

Stefán vildi ekki staðfesta að málin sem látin hefðu verið niður falla í byrjun þessa árs væru 700 talsins. Embætti hans hefur ekki viljað verða við beiðni Vísis um taka saman nákvæmar upplýsingar um málið.

Vísir fékk hins vegar þær upplýsingar hjá Ríkissaksóknara að málin væru 700 talsins.

Aðspurður sagði Stefán ekki draga það mat Ríkissaksóknara í efa.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×