Innlent

Tiltekt nauðsynleg til að auka skilvirkni

Andri Ólafsson skrifar
Stefán Eiríksson lögreglustjóri ásamt Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra
Stefán Eiríksson lögreglustjóri ásamt Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra

Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir það mikilvægt að embættið festist ekki í gömlum kærumálum þar sem á litlu er að byggja. Nauðsynlegt sé að auka skilvirkni í meðferð kærumála.

Eins og Vísir greindi frá í dag lét embætti Stefáns um 700 mál niður falla í byrjun þessa árs. Þetta var gert til þess að taka til í málaskrá embættisins.

Stór hluti þeirra mála sem látin voru niður falla voru mál sem embættið erfði frá lögreglunni í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði en þau lögregluembætti voru lögð niður til þess að rýma fyrir nýstofnuðu embætti Stefáns, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Málin sem látin voru niður falla voru af öllum stærðum og gerðum. Þau áttu það hins vegar öll sameiginlegt að hafa verið lengi í rannsókn og þóttu ekki líkleg til að leiða til sakfellingar að mati lögfræðinga lögreglunnar.

Stefán segir að með þessari tiltekt hafi verið reynt að gera meðferð mála og rannsókn þeirra eins markvissa og kostur er.

"Við vildum tileinka okkur ákveðið gegnsæi og aukna skilvirkni í okkar vinnubrögðum," segir Stefán.

Hann vill að ákvarðanir um niðurfellingu mála séu teknar með skipulögðum og formlegum hætti frekar en tilviljankenndum.

"Og upphaf hvers árs er góður tími til þess að fara yfir stöðu mála og taka stöðuna á málaskránni. Ákveða hvort að rétt sé að halda áfram með rannsókn mála eða hvort að rétt séð að láta þau niður falla. Það er það sem við ákváðum að gera í byrjum þessa árs og við hyggjumst gera þetta svona áfram."

Vísir hefur óskað eftir nákvæmum upplýsinum um hversu mörg mál voru látin niður falla í byrjun þessa árs. Þau svör fengust frá lögreglunni að það útheimti of mikla vinnu af hálfu embættisins og synjaði beiðninni.

Vísir hyggst kæra þessa synjun til úrksurðarnefndar upplýsingamála.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×