Fótbolti

Ísland niður um eitt sæti á FIFA-listanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslensku landsliðsmennirnir fagna sigurmarki sínu gegn Makedóníu í haust.
Íslensku landsliðsmennirnir fagna sigurmarki sínu gegn Makedóníu í haust.

Íslenska landsliðið í knattspyrnu féll um eitt sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins sem gefinn var út í dag.

Ísland er nú í 83. sæti listans og í 37. sæti á lista yfir Evrópuþjóðir. Albanía er í 36. sæti og Hvíta-Rússland í 38. sæti. Ísland vann 1-0 útisigur á Möltu í síðasta mánuði.

Ísland stökk upp um 21 sæti þegar listinn var gefinn út í síðasta mánuði en þá hafði Ísland ekki náð svo hátt á listanum síðan 2003.

Spánverjar eru sem fyrr í efsta sæti listans með talsvert forskot á Þýskaland sem er í öðru sæti. Holland hefur sætaskipti við Ítalíu og er í þriðja sæti.

Brasilía, Argentína og Króatía koma næst sem er óbreytt staða liðanna frá síðasta lista en Englendingar hækka sig upp um tvö sæti eftir sigurinn á Þjóðverjum í síðasta mánuði og eru í áttunda sæti.

Ísland er í neðsta sæti af þeim liðum sem eru með Íslandi í riðli í undankeppni HM 2010. Hollendingar eru langefstir þeirra liða í þriðja sæti en Skotar koma næstir í 33. sæti. Makedónía er í 56. sæti og Noregur í því 59.

Sem fyrr segir hækkar Holland sig um eitt sæti frá síðasta lista, Skotland stendur í stað en Makedónía lækkar um sjö sæti og Noregur fimm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×