Framherjinn Lukas Podolski, sem fæddist í Póllandi, tryggði Þjóðverjum sigur á Pólverjum í síðari leik dagsins í B-riðlinum á EM. Podolski skoraði bæði mörk Þjóðverja í 2-0 sigri.
Podolski kom þýska liðinu á bragðið eftir 20 mínútur eftir góða sendingu frá Miroslav
Klose. Þjóðverjarnir héldu áfram að þjarma að grönnum sínum og máttu t.d. þakka markverðinum Artur Boruc að Michael Ballack skoraði ekki annað markið.
Það var svo Podolski sem skoraði annað mark sitt 18 mínútum fyrir leikslok með þrumuskoti og tryggði þýska liðinu verðskuldaðan sigur.
Þjóðverjar og Króatar hafa því hlotið 3 stig eftir fyrstu umferðina í B-riðli en heimamenn í Austurríki og Pólverjar stigalausir.