Innlent

Tekur undir kröfur Gylfa um að ráðherrar víki

MYND/Hari

Skúli Thoroddssen, framkvæmdastjóri Starfgreinasambandsins, tekur undir þær kröfur Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra eigi að axla ábyrgð á bankahruninu og segja af sér.

Í pistli á heimasíðu Starfsgreinasambandsins segir Skúli að það sé staðreynd að þjóðin sé komin á vonarvöl vegna pólitískra mistaka. „Traustið á Seðlabankann er löngu horfið og þeir aðrir sem bera ábyrgð á vandanum eru þær eftirlitsstofnanir sem brugðust, fjármáleftirlitið og bankamálaráðuneytið. Það er því eðlilegt að forseti ASÍ kalli eftir ábyrgð fjármála- og bankamálaráðherra, sem brugðust embættisskyldu sinni. Undir það má taka. Þeir áttu eða a.m.k. máttu vita, að útrás bankanna gat endað með ósköpum. Þótt engan hafi grunað að afleiðingarnar yrðu jafn skelfilegar og raun bar vitni, er hin pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð mikil og óumflýjanleg. Hana verða menn að axla," segir Skúli. Hann bætir við að ábyrgð útrásarmanna sé mikil og þeirra skuldadagar hljóti og verði að koma.

Verðum að leita samninga með auðmýkt

Skúli fjallar einnig um deilur Íslendinga við Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninganna og áhrif þeirra á lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann segir óstaðfestar fregnir herma að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að reyna til þrautar að semja við þessar þjóðir og að þetta sé reyndar eina leiðin til að fá lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum sem sé brýnasta verkefni dagsins í dag.

Við höfum hins vegar ekki efni á að axla ábyrgð á öllum þessum skuldbindingum. „Fjárhagsbaggin mun þýða landflótta, hrun og áratuga fátækt hér á landi ef við berum hann ein. Við verðum þess vegna að leita aðstoðar og semja okkur út úr vandanum, viðurkenna hin pólitísku mistök undanfarinna ára og mæta örlögum okkar af auðmýkt. Við viljum borga en getum það ekki nema með aðstoð alþjóðasamfélagsins til lengri tíma. Við þurfum neyðaraðstoð og hjálp eru þau skilaboð sem utanríkisráðherra verður að koma á framfæri í útlöndum. Því lengur sem það dregst, mun reiði almennings á Íslandi og í útlöndum magnast. Fólk vill vita hvert stefnir," segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×