Innlent

Sjálfstæðismenn ræddu ekki stöðu seðlabankastjóra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á blaðamannafundi í Valhöll fyrir stundu að ekki væri hægt að leyna því að sú skoðun sem Jón Steinsson, lektor við Columbia háskólann, setti fram í grein í dag nyti aukins fylgis meðal sjálfstæðismanna. Afstaða forystumanna flokksins væri hins vegar ljós.

Jón Steinsson gagnrýndi pólitískar ráðningar og nefndi þar ráðningu Davíðs Oddsonar sem seðlabankastjóra í grein sem birtist á vefritinu Deiglunni. Sagði hann m.a að ummæli Davíðs hefðu skaðað þjóðina. „Aðgerðir hans og ummæli á síðustu vikum og mánuðum hafa gert það að verkum að fjöldi erlendra stórblaða hefur birt greinar sem hæðast að honum og hæðast í leiðinni að íslensku þjóðinni," skrifar Jón.

„Það hefur verið settur þrýstingur á formanninn en hann ber traust til seðlabankastjóra. Við höfum ekki verið að spá í þessum hlutum undanfarna daga. Við höfum verið að hugsa um að fara í þessa evrópuvinnu og þannig tryggja hagsmuni okkar sem best," sagði Þorgerður.

Geir H. Haarde var einnig spurður hvort einhverrar stefnubreytingar væri að vænta frá forystu flokksins varðandi stöðu seðlabankastjóra. Geir svaraði því til að það væri ekki miðstjórn Sjálfstæðisflokksins sem ákveddi það og það hefði ekki verið rætt á fundinum í dag.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×