Enski boltinn

Hermann á leið frá Portsmouth við óbreytt ástand

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson landsliðsmaður og leikmaður Portsmouth.
Hermann Hreiðarsson landsliðsmaður og leikmaður Portsmouth.

Ólafur Garðarsson umboðsmaður Hermanns Hreiðarssonar, leikmanns Portsmouth, segir langlíklegast að hann sé á leið frá félaginu við óbreytt ástand.

Portsmouth er í sjöunda sæti deildarinnar með tólf stig eftir sjö umferðir. Hermann hefur einungis einu sinni verið í byrjunarliði Portsmouth og þrívegis komið inn sem varamaður.

Eini leikur Hermanns í byrjunarliði Portsmouth var í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í haust er liðið tapaði 4-0 fyrir Chelsea.

„Ég tel það langlíklegast að hann sé á leið frá félaginu þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar," sagði Ólafur í samtali við Vísi. „Hann er búinn að reynast félaginu mjög vel auk þess sem honum og Harry Redknapp knattspyrnustjóra er vel til vina."

„Það er gríðarlega mikill áhugi fyrir starfskröftum Hermanns, bæði í ensku úrvalsdeildinni og B-deildinni. Maður skyldi aldrei segja aldrei en langlíklegast er að hann verði áfram í Englandi."

Hermann er samningsbundinn Portsmouth til loka tímabilsins og segir Ólafur að ólíklegt verði að teljast að félagið fari fram á greiðslu fyrir hann ef hann fer annað í janúar. Ólafur segir þar að auki að Hermann hafi engar áhyggjur af sinni stöðu í heimi knattspyrnunnar.

„Nákvæmlega engar áhyggjur. Hann hefur ekki verið í betra formi í þrjú ár og hann er bara þannig maður að hann vill spila í hverri viku. Allir sem þekkja hann vita að bekkjarseta á ekki vel við hann."

„Þetta hefur komið á óvart enda var Portsmouth með eina bestu vörnina í deildinni í fyrra. 23 sinnum komst Portsmouth yfir í sínum leikjum og vann alla þá leiki. En það er Redknapp sem tekur þessar ákvarðanir og ekkert við því að gera. Hann verður að verja sína stöðu en það verður Hermann einnig að gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×