Innlent

Útgerðarfyrirtæki fá tilboð í gjaldeyri

Útgerðarfyrirtæki fá reglulega fyrirspurnir frá innflutningsfyrirtækjum um kaup á gjaldeyri að sögn framkvæmdastjóra LÍÚ. Hann segir tilboðin oft 20 til 30 prósent fyrir ofan gengi Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn takmarkaði gjaldeyrisviðskipti í kjölfar bankahrunsins í byrjun október. Forgangsröðun var í gildi með kaup á gjaldeyri og þá voru Seðlabankanum veittar víðtækar heimildir til að takmarka fjármagnsflutninga milli landa með lögum sem Alþingi samþykkti á föstudag.

Í sumum tilvikum hafa fyrirtæki því neyðst til að leita annarra leiða til að verða sér úti um gjaldeyri.

Friðrik Jón Arngrímsson, Framkvæmdastjóri LÍÚ segir að útgerðarfyrirtækjum berist reglulega óskir um gjaldeyrisviðskipti. Bæði frá fyrirtækjum í innflutningi, og fyrirtækjum með erlend lán. Upphæðirnar sem um ræðir séu oft á tíðum nokkuð stórar.

Gengisvísitalan stendur nú 243 stigum og hefur fallið hratt á þessu ári. Seðlabankinn hefur haldið úti gengisskráningu eftir að bankarnir hrundu en þar krónan mun sterkari en almennt gerist á mörkuðum erlendis.

Friðrik segir að tilboðin í gjaldeyriskaup séu oftast vel yfir gengi Seðlabankans. Hann hafi heyrt um tilboð sem séu 20-30 prósentum yfir gengi bankans og jafnvel hærri. Hann segist þó engan hafa hitt sem hafi tekið þessum tilboðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×