Erlent

Dæmdir í tólf og sjö ára fangelsi fyrir að undirbúa hryðjuverk

MYND/AP

Tveir múslímar í Danmörku voru í dag dæmdir í tólf og sjö ára fangelsi fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk og búa til sprengiefni til verksins. Dómur í Glostrup í Kaupmannahöfn hafði fyrr í dag sakfellt mennina fyrir athæfið.

Annar mannanna, sem var af pakistönskum uppruna, taldist vera höfuðpaurinn og hlaut hann tólf ára fangelsi. Hinn, sem var af afgönskum uppruna, hlaut sem fyrr segir sjö ára fangelsi og verður eftir afplánun vísað úr landi vegna brotanna. Lögmaður höfuðpaursins áfrýjaði dómnum strax til Landsréttar en lögmaður samverkamannsins ákvað að nýta sér lögbundinn frest til þess að ákveða það.

Mennirnir voru teknir ásamt sex öðrum í fyrrahaust en þá taldi danska leyniþjónustan ljóst að þeir ætluðu að láta til skarar skríða. Ekki liggur fyrir hvar þeir ætluðu að láta til sín taka en í fórum þeirra fundust skissur af einhverju sem líktist almenningsfarartæki.

Höfuðpaurinn mun hafa sótt þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna í Pakistan en það var með falinni myndavél í íbúð hans sem leyniþjónustan komst á snoðir um sprengiefnaframleiðsluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×